21.09.2022

VÍS stofnar SIV eignastýringu

VÍS hefur ákveðið að útvíkka starfsemi sína og bjóða upp á sjóða- og eignastýringu.

mynd
VÍS mun eiga ráðandi hlut í SIV eignastýringu

Stofnað verður nýtt dótturfélag undir starfsemina sem hlýtur nafnið SIV eignastýring (siveignastyring.is). Félagið mun í framhaldi sækja um starfsleyfi til eignastýringar og rekstrar sjóða — en stefnt er að því að starfsemi félagsins hefjist um leið og starfsleyfi frá Seðlabanka Íslands liggur fyrir.

Góður árangur í fjárfestingum VÍS

Árangur VÍS í fjárfestingum hefur verið mjög góður á undanförnum árum. Fjárfestingartekjur félagsins frá árinu 2018 nema um 21 milljarði króna og telja fjárfestingareignir þess nú um 45 milljarða króna. Fjárfestingar eru önnur af tveimur grunnstoðum í starfsemi VÍS — og því fellur eignastýring vel að starfsemi félagsins. VÍS mun fela SIV eignastýringu að stýra fjárfestingareignum sínum.

Reynsla í lykilhlutverki

VÍS mun eiga ráðandi hlut í SIV eignastýringu — og mun eitt fara með virkan eignarhlut í félaginu. Aðrir helstu hluthafar verða Arnór Gunnarsson, nú forstöðumaður fjárfestinga hjá VÍS, og Þorkell Magnússon, sem starfað hefur sem forstöðumaður sjóðastýringar Kviku banka — en þeir munu jafnframt starfa hjá félaginu. Arnór Gunnarsson verður framkvæmdastjóri SIV eignastýringar, en hann hefur starfað á íslenskum fjármálamarkaði síðan 2001. Þorkell verður forstöðumaður sjóðastýringar hjá SIV eignastýringu, en reynsla hans á fjármálamarkaði nær aftur til ársins 1998. Áður störfuðu Arnór og Þorkell saman hjá Öldu sjóðum, Stefni og Kaupþingi.

Tækifæri á íslenskum fjármálamarkaði

Örar samfélagsbreytingar kalla á stöðuga endurskoðun á þjónustuframboði, ekki síst í trygginga- og fjármálaþjónustu. Þessi útvíkkun á starfsemi VÍS endurspeglar þá þróun sem hefur átt sér stað víða í Evrópu þar sem tryggingafélög hafa boðið upp á fjölbreyttari trygginga-og fjármálaþjónustu. Á undanförnum árum hefur verðbréfamarkaður verið að byggjast upp hér á landi og hefur fjárfestingakostum í skráðum verðbréfum fjölgað til muna. Á sama tíma hefur þátttakendum á markaði fjölgað talsvert með aukinni þátttöku almennings á skráðum hlutabréfamarkaði og uppfærslu Íslands í flokk nýmarkaðsríkja hjá alþjóðlega vísitölufyrirtækinu FTSE Russell. Því er ljóst að spennandi tækifæri eru til staðar á íslenskum fjármálamarkaði.