19.10.2023

SIV eignastýring stofnar 10,5 ma.kr. sjóð um fjármögnun fyrirtækja

SIV eignastýring hefur lokið fjármögnun á nýjum sjóði sem ber nafnið SIV Credit Fund slhf. Sjóðurinn er samlagshlutafélag sem kemur að fjármögnun lítilla og meðalstórra fyrirtækja og mun fjárfesta í skuldabréfum og lánum til fyrirtækja, að mestu með veði í fasteignum og öðrum fastafjármunum. Heildaráskriftarloforð sjóðsins nema 10,5 milljörðum króna og eru eigendur sjóðsins margir af stærstu fagfjárfestum landsins.

mynd

Rekstraraðili sjóðsins er SIV eignastýring hf. Heildareignir í stýringu félagsins eru um 60 ma.kr. en félagið fékk starfsleyfi í júní 2023.

Framkvæmdastjóri sjóðsins er Þorkell Magnússon, sem jafnframt er forstöðumaður sjóðastýringar hjá SIV eignastýringu. Þorkell hefur yfir 20 ára reynslu af eigna- og sjóðastýringu og hefur komið að rekstri sjóða um fjármögnun fyrirtækja í meira en áratug.

Þorkell Magnússon, framkvæmdastjóri SIV Credit Fund slhf.:

,,Það er ánægjulegt að tilkynna um stofnun á nýjum sjóði á þessum áhugaverðu tímum. Mikil breyting hefur orðið á vaxtaumhverfinu en í rekstri sjóðsins munum við leggja áherslu á að finna góða fjárfestingarkosti og veita fjárfestum aðgengi að áhugaverðum lánamarkaði.“

Arnór Gunnarsson, framkvæmdastjóri SIV eignastýringar:

,,Stofnun á SIV Credit Fund er jákvætt skref í uppbyggingu á SIV eignastýringu. Við sjáum mikil tækifæri á lánamarkaði og teljum að sá markaður muni vaxa enn frekar. Stofnun SIV Credit Fund er einn liður í þeirri vegferð og er ánægjulegt að sjá það traust sem fjárfestar sýna félaginu.“

Nánari upplýsingar veitir Þorkell Magnússon, forstöðumaður sjóðastýringar hjá SIV eignastýringu, í síma 854-1090.