SIV eignastýring sameinast ÍV sjóðum og verður Íslensk verðbréf
Með sameiningu SIV eignastýringar og ÍV sjóða undir heitinu Íslensk verðbréf verður til öflugt eigna- og sjóðastýringarfélag með hátt í 200 milljarða króna í stýringu og starfsemi í Reykjavík og á Akureyri.
Arnór Gunnarsson verður framkvæmdastjóri Íslenskra verðbréfa og Jón Helgi Pétursson rekstrarstjóri. Sameinað félag mun byggja á öflugu teymi sjóðstjóra frá SIV og ÍV sjóðum með áratuga reynslu í fjárfestingum, en starfsemi félagsins skiptist í eigna- og sjóðastýringu. Fjárfestingasafn VÍS trygginga verður sem fyrr í stýringu hjá eignastýringarsviði félagsins sem Arnór mun veita forstöðu en auk þess eru sérgreind söfn fyrir fagfjárfesta og stofnanafjárfesta í stýringu félagsins. Þorkell Magnússon mun veita sjóðastýringu forstöðu en félagið mun bjóða upp á fjölbreytta valkosti opinna og lokaðra sjóða fyrir almenna fjárfesta jafnt og fagfjárfesta. Íslensk verðbréf stefnir á frekari vöxt á innlendum eignastýringarmarkaði með hagsmuni viðskiptavina og langtímaárangur þeirra að leiðarljósi..
Hvað verður um félögin?
SIV eignastýring og ÍV sjóðir verða sameinuð og munu bera nafnið Íslensk verðbréf. Íslensk verðbréf verður því öflugt eigna- og sjóðastýringarfélag með um 200 ma.kr. í stýringu. Félagið verður dótturfélag Skaga og mun Arnór Gunnarsson verða framkvæmdastjóri félagsins og Jón Helgi Pétursson rekstrarstjóri, auk þess sem Einar Már Hólmsteinsson verður áhættustjóri sameinaðs félags. Arnór verður staðsettur á skrifstofu félagsins í Reykjavík en Einar og Jón Helgi á Akureyri.
Hversu margir starfsmenn vinna hjá félaginu?
Í sameinuðu félagi verða áfram tvö svið, eignastýring og sjóðastýring. Arnór Gunnarsson verður forstöðumaður eignastýringar en þar munu einnig starfa Guðmundur Oddur Eiríksson, Hreggviður Ingason, Ottó Biering Ottósson og Sveinn Torfi Pálsson. Arnór, Guðmundur og Hreggviður verða starfandi á skrifstofum félagsins í Reykjavík en Ottó og Sveinn á skrifstofum félagsins á Akureyri. Fjárfestingarsafn VÍS trygginga verður sem fyrr í stýringu hjá eignastýringarsviði félagsins en auk þess eru sérgreind söfn fyrir fagfjárfesta og stofnanafjárfesta í stýringu félagsins.
Þorkell Magnússon verður forstöðumaður sjóðastýringar hjá Íslenskum verðbréfum og mun sviðið telja samtals sjö starfsmenn; Guðrún Una Valsdóttir, Halldór Andersen, Jón Rúnar Ingimarsson, Sigurður Ottó Þorvarðarson, Sævar Ingi Haraldsson, Þorkell Magnússon og Þorsteinn Ágúst Jónsson. Þorsteinn verður starfandi á skrifstofunni á Akureyri en aðrir starfsmenn sjóðastýringar á skrifstofunni í Reykjavík.
Hvað verður um þá sjóði sem SIV eignastýring og ÍV sjóðir eru að reka í dag?
Vöruframboð sameinað félags verður einfaldað með sameiningu þeirra sjóða sem hafa sambærilega fjárfestingarstefnu. Ekki verður breyting á sjóðstjórum afurðanna en nánari útfærsla á sameiningum sjóða verður tilkynnt þegar að því kemur.
Opnir sjóðir fyrir almenna fjárfesta verða reknir undir nafni ÍV. Fagfjárfestasjóðir SIV eignastýringar verða áfram reknir undir nafni SIV.
Hvenær mun samruni félaganna eiga sér stað?
Samruni félaganna miðast við 01.01.2025, að því gefnu að samþykki fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands og staðfesting fyrirtækjaskrár Skattsins liggi fyrir. Sameining félaganna, og þar með sameining sjóða, mun eiga sér stað þegar samþykki fjármálaeftirlits SÍ liggur fyrir en gert er ráð fyrir að það verði undir lok fyrsta ársfjórðungs 2025 eða í byrjun annars ársfjórðungs 2025.
Eru Fossar fjárfestingarbanki hluti af sameinuðu félagi Íslenskra Verðbréfa?
Nei, Fossar fjárfestingarbanki og Íslensk verðbréf eru hvort um sig dótturfélag Skaga – áður Vátryggingafélags Íslands. Íslensk verðbréf munu þó áfram sjá um stýringu sérgreindra safna og eignaleiða hjá Fossum fjárfestingarbanka, líkt og SIV eignastýring gerði áður.
Hvernig mun stúktúr félagsins líta út eftir sameiningu félaganna?
Strúktúr Skaga að sameiningu SIV eignastýringar og ÍV sjóða lokinni má sjá á myndinni hér að neðan.