Hreggviður til SIV eignastýringar
Hreggviður Ingason hefur tekið við sem fjárfestingarstjóri hjá SIV eignastýringu og kemur inn í eignastýringarteymi félagsins frá Fossum fjárfestingarbanka, en bæði félögin tilheyra samstæðu Skaga.
Nýlega var gerð sú breyting innan samstæðu að stýring sérgreinda safna og eignaleiða hjá Fossum fjárfestingarbanka var færð frá bankanum yfir til SIV eignastýringar sem skapar hagræði fyrir samstæðuna og ekki síst, enn betri umgjörð eignastýringar fyrir viðskiptavini samstæðunnar. Eignir í stýringu hjá samstæðu Skaga munu aukast umtalsvert eftir sameiningu við Íslensk verðbréf hf. og verða eignir í stýringu þá um 220 milljarðar.*
Hreggviður hefur víðtæka reynslu í fjármálum en hann hefur yfir 20 ára reynslu af fjármálamörkuðum, nú síðast sem forstöðumaður eignastýringar hjá Fossum fjárfestingarbanka. Áður var hann forstöðumaður eignastýringar hjá Lífsverki lífeyrissjóði, forstöðumaður afleiðusafns hjá hjá slitastjórn Glitnis og forstöðumaður fjárstýringar VBS fjárfestingarbanka. Hreggviður er með B.Sc. gráðu í hagfræði frá Háskóla Íslands. Hann hefur lokið meistaragráðu í hagfræði frá Boston University og meistaragráðu í fjármálastærðfræði frá University of Warwick í Bretlandi. Hreggviður hefur einnig lokið námi í verðbréfaviðskiptum.
Arnór Gunnarsson, framkvæmdastjóri SIV eignastýringar:
„Það er mikill fengur að fá Hreggvið í teymið okkar því hann býr yfir umfangsmikilli þekkingu á fjármálamörkuðum. Ekki er nema ár síðan SIV eignastýring var stofnað og erum við nú með 90 milljarða í stýringu, en við bjóðum upp á fjölbreytt úrval sjóða fyrir almenna fjárfesta og fagfjárfesta, auk eignastýringar. SIV tilheyrir samstæðu Skaga sem hyggur á enn frekari vöxt á fjármálamarkaði, meðal annars á sviði eignastýringar. Ég er þess fullviss að reynsla hans og menntun muni styrkja okkur enn frekar á vegferðinni framundan.
---
*Kaup Skaga á Íslenskum verðbréfum
Kaup Skaga á Íslenskum verðbréfum voru gerð með fyrirvara um samþykki Fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands og Samkeppniseftirlitsins. Fyrirvara um samþykki Samkeppniseftirlitsins hefur verið aflétt og telur Samkeppniseftirlitið ekki forsendur til þess að aðhafast vegna kaupanna. Gengið hefur verið frá kaupsamningi en eftir stendur fyrirvari um samþykki Fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands fyrir því að Skagi fari með yfir 50% eignarhlut í Íslenskum verðbréfum og dótturfélagi þess, ÍV sjóðum. Framundan er því samþætting Íslenskra verðbréfa í samstæðu Skaga, að fengnu samþykki Fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands og þegar kaupin eru frágengin.